Grjóthaltu kjafti og hitaðu matinn þinn sjálfur !
4.2.2008 | 21:11
Þetta er ættað úr listasýningu ungrar listakonu Körlu Daggar Karlsdóttur sem sýnt var frá í Kastljósinu í kvöld. Þær hefðu nú hrokkið við þessar húsmæðraskólagengnu hér á árum áður við að sjá svona í bróderíinu á eldhúshandklæðinu. En þetta er mjög sérstök sýning listakonunnar þar sem hún saumar hinar ýmsu setningar í ryðgað járn. Mér sýndist þetta nú bara vera afturstingur sem hún hefur saumað ofan í fyrirfram gatað járnið. Listin er fjölbreytt og misjafnt hvað fólki finnst fallegt. Mér fannst þetta skemmtileg hugmynd þótt útlit listaverkanna félli ekkert alveg að mínum smekk allavega ekki það sem sýnt var í þessum stuttu klippum. En þetta er enn eitt dæmið um hversu listin er frjáls og óheft í öllum sýnum fjölbreytileika.
Ég reyni að fara á listsýningar af og til. - Síðasta sýning sem ég datt inná var sýning Þuríðar Sigurðardóttur (söngkonu) nú í janúar - þar sem hún sýndi stór verk unnin með blandaðri tækni. Þar var myndum af stórum rafmagnsmöstrum þrykkt á álplötur og möstrin voru klædd í kvenfatnað í ýmissi mynd og fatnaðurinn virtist mér málaður. En þetta voru töff verk fannst mér. Þuríður er ferlega góður málari og málar a.m.k mjög falegar blómamyndir.
Já það er gaman að fara á listasýningar - getur verið sannkallaður konfektkassi fyrir augun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.