Fuglasafn Sigurgeirs
30.1.2008 | 21:55
Ég var að fletta Blaðinu í gær og sé þar frétt um að Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit hefði hlotnast styrkur að upphæð 20 milljónir króna úr Aurora velgjörðarsjóði. Ætlunin er að safna til þess m.a að byggja húsnæði yfir safnið sem telur fjöldann allan uppstoppaðra fugla og eitthvað af eggjum líka. Vinkona mín vakti athygli mína á þessu því að í blaðinu var mynd af Pétri Bjarna bekkjarbróður okkar þar sem hann var að taka við styrknum við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu á dögunum. Sigurgeir sá sem safnaði öllu þessu og safnið er kennt við lést af slysförum fyrir nokkrum árum ungur maðurinn - hann var að ég best veit mágur Péturs Bjarna. Ég mundi reyndar eftir að hafa séð umfjöllun um þetta safn í sjónvarpinu á sínum tíma og vissi því af tilvist þess.
Það er gaman ef aðstandendum safnsins tekst að klára þetta dæmi - að byggja aðstöðu fyrir það því mér skilst að þetta sé ótrúlegur fjöldi fugla og eggja, fræðslugildið örugglega ótvírætt. Mér finnst þetta hið áhugaverðasta mál.
Þegar ég bjó á Akureyri fór ég í fuglaskoðunarferð - lygilega skemmtileg. Maður brunar venjulega eftir þjóðvegunum og gefur lífríkinu lítinn gaum þannig lagað séð. Í þessari ferð fórum við hópur vinnufélaga og fylgifiska, lögðum upp frá Leirunesti á Akureyrir og inn að Kristnesi. Á þessari ekkert voðalega löngu leið sáum við hátt á þriðja tug fuglategunda. Leiðsögumaðurinn var með skúbber sem er stærðar kíkir á þrífæti og við stoppuðum af og til og kíktum. Þarna sá ég Jaðrakan í fyrsta sinn á æfinni og fleiri sjaldgæfa fugla. Þetta var lærdómsríkt og bara þrælgaman. Ferðin nýttist mér svo sem ræðuefni á félagsmálanámskeiði sem ég fór á fyrir ekki mörgum árum síðan. Á slóðinni www.fuglasafn.nett.is má sjá allt um Fuglasafn Sigurgeirs sem ég skrifaði um hér að ofan. Þetta á vonandi eftir að verða að verða hið aðgengilegasta safn sem gaman verður að heimsækja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.