Þorrablótið yfirstaðið

Þá er þorrablótið búið.   Það lukkaðist bara sérdeilis vel.  Skemmtiatriðin voru með öðru sniði en vant er og fínt að breyta aðeins til.  Hluti þeirra hafði verið tekinn upp fyrirfram hér og þar um bæinn þar sem María Ragnars lék fréttakonu fréttastöðvar Patreksfjarðar og aðrar þorrabl.nefndarkonur birtust svo í hinum ýmsu hlultverkum.  Þetta var svo sýnt á stóru tjaldi og eftir innslögin úr þessum upptökum var tengt efni sýnt í leiknum atriðum á sviðinu.  Þetta kom rosalega flott út og allir skemmtu sér konunglega. Olíuhreinsunarstöðin var auðvitað efniviður í atriði, ófullgerð skólalóðin og fleira.  -   Maturinn var svo  alveg eðal og borðherrann minn sem var að fara í fyrsta skipti á þorrablót hér fílaði þetta mjög vel.  Hann ætlaði ekki á blót en lét undan þrýstingi mínum og sá ekkert eftir því.  Þetta var hann Guðmundur Viðar sem fór svo þegar ballið byrjaði því hann átti að mæta á  vakt í lögreglunni.  Seinna um kvöldið spiluðu svo Viðar og Matti fyrir dansi með tvo hjálparkokka frá Flateyri með sér og fjörið stóð fram á nótt.  Ég er stolt af Félagskonum hversu hæfileikaríkar þær eru bæði í matartilbúningi þar sem Karólína Guðrún var yfirkokkur alveg með hlutina á tæru konan sú.  Að ég tali nú ekki um hæfileikann að hrista fram úr erminni svona frábæra frumsamda skemmtidagskrá en þar fór María Ragnars fremst í flokki. Aðrar nefndarkonur voru svo leikandi og syngjandi - ótrúlega flott hjá þeim.  Lagið "Allt fyrir ástina" var svo lokalagið þar sem konur mættu í flottum tjullfötum og dönsuðu frumsaminn hressan dans og allir klöppuðu með. Feikna stuð alveg. Þema blótsins var kærleikurinn og salurinn skreyttur á viðeigandi hátt.  Kærleiksbjörninn var svo til staðar í öllum atriðum og í því hlutverki var hún systir mín og stóð sig vel. HeartHeartHeart Félagskonur í Kvenfélaginu Sif eru ótrúlega duglegar, það verður ekkert af þeim skafið. Í félaginu okkar eru 3 konur heiðursfélagar.  Lilja Jónsdóttir sá sér fært að mæta á blótið,  hinar tvær sendu  hlýjar kveðjur, þær Guðrún Halldórsdóttir sem er búsett hér en treysti sér ekki að þessu sinni og Jóhanna Þórðardóttir sem býr á Hrafnistu, flutti  héðan fyrir mörgum árum og  hugsar ótrúlega vel til okkar og sendir  hlýlega orðað skeyti á hverju ári.  Í kveðjunni frá henni núna  gat hún þess að maðurinn hennar Árni Bæringsson hefði orðið 95 ára akkúrat þ. 26. janúar. Þau Árni bjuggu á Bjarkargötu 6 hér í bæ að því er ég best veit lungan af sínum búskap.  Þessar  konur Lilja, Jóhanna og Guðrún hafa allar starfað af ósérhlífni fyrir félagið í þágu þeirra líknarmála sem það  hefur unnið að og eru svo sannarlega vel að þessari heiðursfélaganafnbót komnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný

Heyrðirðu rás 2 í gærmorgun þar sem verið var að hrósa þorrablótinu hjá okkur?

Kv. Guðný

Guðný , 28.1.2008 kl. 21:25

2 Smámynd: Anna

Nei Guðný - heyrði það ekki, hver var að því ?

Anna, 28.1.2008 kl. 21:33

3 Smámynd: Guðný

Rósa (úr Borgarnesi) sendi póst á rás 2 og sagði að þetta þorrablót væri líklega bara eitt af því flottasta sem hægt væri að finna á landinu.

Guðný , 28.1.2008 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband