Í morgunsárið.

Í dag þriðjudaginn 15. janúar er þokkalegt veður og nánast snjólaust eins og undanfarið. Ég fór eldsnemma í ræktina. Vær mætt fyrir kl. 7:00.  Í salnum lá fólk á gólfinu í teygju og slökunaræfingum undir leiðsögn þjálfara.  Ég fór galvösk á stigvélina eða hvað þetta nú heitir og hitaði  þar upp í 20 mín. en um það bil var fólkið að yfirgefa salinn.  Ég komst að því eftirá að tvo morgna í viku er þjálfarinn með salinn fyrir sinn hóp.  Ég var ekkert stoppuð af við innskráningu, en veit þetta bara núna, þetta var allt í gúddí þannig, gerði bara mínar æfingar af krafti. Það var hressandi að mæta svona snemma.

Mætti 8:30 í vinnuna og kíkti aðeins á netblöðin áður en ég loggaði mig formlega inná vinnuna.  Á www.bb.is sá ég eina af fínum greinum Þórólfs Halldórssonar en hann er ötull talsmaður bættra samgangna og skrifin hans eru þakkarverð.  Mér finnst lítið heyrast í sveitarstjórnarmönnum hér á svæðinu  um málið, - láti þeir til sín taka hefur það alveg farið framhjá mér.  Í greininni sem ég las áðan var Þóróflur að tala um leiðina sem við þurfum að fara til Ísafjarðar yfir vetrartímann og fl. þessu tengt.  Leiðin er suður Laxárdalsheiði í Dölum, norður Strandir og um Djúp. Vel á sjöundahundrað km. Mokstursreglur Vegagerðarinnar spila stóra rullu í þessu samgönguhafti sem við búum við. Stundum finnst manni vel hægt að moka þó að þeir geri það ekki.  Reyndar hef ég fullan skilning á mokstursleysi sé snjóflóðahætta en það er alls ekki alltaf ástæðan.  Málið er að það eru ENGAR samgöngur aðrar hér á milli - ekkert flug eða neitt.  Ég á dóttur búsetta á Ísafirði. Hún kom hingað um jólin og fór þá yfir Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar.  Á milli jóla og nýárs gerði smá hret og það nægði til þess að hún þurfti að fara "lengri" leiðina heim til Ísafjarðar eða um 9 tíma ferðalag.  Við hittumst oftar byggi hún í Reykjavík, það er nokkuð ljóst.  Í sumar var svo vegurinn það  lélegur hér að sunnanverðu að maður þurfti helst að vera á jeppa - ég lagði ekki á minn litla sæta bíl að fara þetta enda hola við holu á köflum.  Maður getur endalaust nöldrað yfir þessu en ergir bara sjálfan sig, finnst ekkert miða í þessum málaflokki þrátt fyrir áratugalanga þörf fyrir bættum samgöngum innan Fjórðungs.  En best að einhenda sér í vinnuna. Eigið góðan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband