2008
8.1.2008 | 22:14
Já gleðilegt ár gott fólk Það er fínt að láta upphaf nýs árs verða til þess að byrja að nýju á bloggskrifum, a.m.k skrifum svona af og til.
Ég og mitt fólk áttum dásamleg jól og nutum samverunnar. Jólarjúpan klikkaði ekki. Stórfjölskyldan hittist oft yfir hátíðarnar, skötuveisla hjá mömmu, jólagrautur í hádegi aðfangadags hjá mér og matarveisla hjá eldri bróður mínum og mágkonu á jóladagseftirmiddag. Á gamlárskvöld var mér og fl. boðið í kalkún til systur minnar og mágs, eðalfínt allt saman. Ég var svo heppin að fá dóttur mína og tengdason hingað yfir jólin og sonurinn var auðvitað á staðnum þannig að ég var aldeilis lánsöm að hafa svona marga mér kæra í kringum mig. Mikil veisluhöld að baki og nú er bara að taka upp léttara fóður og hreyfa sig eitthvað þá verður allt í gúddí.
Tíminn flýgur þegar nóg er að gera en hér á blogginu hefur reyndar ekkert gerst síðan í september. Það hefur ýmislegt drifið á daga manns svo sem. Við í Kvenfélaginu Sif afhjúpuðum minnisvarða þ. 13. október um konu, Guðrúnu Valdadóttur sem drekkt var í á hér innarlega í bænum árið 1754. Hún var dæmd að ólögum þess tíma Stóra dómi og barnsfaðir hennar (sá eldri) einnig. En um það snerist málið að hún var sögð hafa lagst með feðgum sem var dauðasök en mennirnir voru fósturfeðgar og báðir barnsfeður hennar eins og fyrr segir. Minnisvarðinn er stór og myndarlegur steinn sem sóttur var "inn á hlíð" þ.e Raknadalshlíðina. Á steininn er fest koparplata og til hliðar við þennan stein er annar minni sem á er fest skilti þar er sagan sögð í grófum dráttum. Steinarnir eru við Mikladalsá til móts við Vegagerðarhúsið, en þar er hylur í ánni sem sagt er að Guðrúnu hafi verið drekkt í, oftast nefndur drekkingarhylur.
Nú fer mínu tveggja ára starfstímabili sem formaður Kvenfélagsins Sifjar að ljúka og er þorrablótið þ. 26. jan svona með því síðasta sem gerist á mínu starfstímabili utan námskeiðs sem ætlunin er að halda í febrúar. Þetta hefur verið ágætt og lærdómsríkt tímabil.
Hér í bænum hafa hugmyndaríkir aðilar verið að læðast um, meira að segja í skjóli nætur og minna fólk á með ýmsum hætti að elska lífið og tilveruna í allri sinni mynd og að undanskilja ekki náungann. Þetta uppátæki hefur ratað í fjölmiðla og er hið dularfyllsta mál þar sem allt virðist á huldu um hverjir standa þarna að baki. Þetta kærleiksríka fólk var meira að segja svo öflugt að búa til jólakort á hvert heimili í bænum. Ég segi nú ekki annað en að ég dáist að hverjum sem þarna eru að verki. Okkur bæjarbúum finnst þetta bara hið skemmtilegasta framtak og þetta hefur svo sannarlega lífgað uppá bæjarbraginn. Fólk er mikið að spá í hver eða hverjir séu að þessu og mörgum steinum velt upp um það. Ég hef margsinnis verið spurð um hvernig "við" komum ljósi á Kleifarkarlinn en hann var ljósum prýddur karlgreyið. Einhverjir halda að ég sé ein af þessu skemmtilega kærleiksríka fólki. Ég tek því nú bara sem complementi - verð að segja það.
Hingað á Patreksfjörð eru komnir öflugir tónlistakennarar og tónlistarnám að hefjast af fullum krafti. Að sögn hafa vel á sjötta tug nemenda skráð sig og fjölbreytt nám í boði bæði í söng og hljóðfæraleik. Þetta finnst mér afskaplega gott og nauðsynlegt og þessu fagna bæjabúar eins og aðsókn sýnir. Lítil frænka er byrjuð að læra á gítar með sína örvhentu sem verður henni varla til trafala eins músíkölsk og áræðin hún nú er. Músíknám er gífurleg jákvæð viðbót við allt líf hér eins og annarsstaðar það er margsannað mál.
Læt gott heita í bili, þetta var svona rétt til að sýna að ég er ekki alveg steinhætt hér í blogginu- meira fljótlega
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.