Húsin í bænum

Hér á Patreksfirði seljast hús og íbúðir sem aldrei fyrr.  Það er auðvitað bara  jákvætt svona alla jafna.  Brottfluttir og aðrir  hafa  eygt tækifæri til að eignast sumarhús fyrir lítið sé miðað við verðlag  sumarhúsa á suðurhorninu og reyndar víðar. 

Ekki eru allir á eitt sáttir með þessa þróun.  Góð einbýlishús hafa nýverið selst í þessum tilgangi.  Þetta mál hefur nokkra fleti sem ég ætla að velta upp.   Einn er sá flötur sem vegur þarna þyngst  og hann er sá  að enginn hefur heilsársbúsetu í eignunum, sem sagt þarna býr enginn með lögheimili á staðnum  og skilar þar af leiðandi ekki sambærilegu til samfélagsins og byggi eigandi hér  árið um kring .  En þetta finnst mér meira vera afleiðing þeirrar fléttu sem í daglegu tali  kallast þróun og er í raun ástand sem misvel hefur unnist úr af ráðamönnum.

Ég sé það jákvæða við sumarhúsavæðinguna  að í einhverjum tilfellum er fólk að kaupa hús/íbúðir sem þarfnast viðgerðar bæði að utan og innan.  Fólk byrjar að taka til hendinni og fínisera eignina og umhverfi hennar, sum húsakynnin hafa staðið auð en fyllast af lífi á meðan fólk gistir þau.  Margir  nýta hvert tækifæri til að koma í húsið sitt og njóta þess að vera hér sem oftast og taka góðan þátt í viðburðum í bæjarlífinu.   Ein af mínum æskuvinkonum var ásamt bróður sínum að kaupa sér eign hér sem reyndar var æskuheimilið hennar.  Hún ljómaði eins og sól þegar hún sagði mér fréttirnar og ég var auðvitað alsæl að fá þau hér í nágrenni við mig. Finnst það alveg frábært bara  Smile.    Ég veit að þau eiga eftir að verða hér með annan fótinn og hafa reyndar mikið verið á ferðinni hér fyrir vestan í gegnum árin.   Ég tel svona hóflega sumarhúsabyggð innan bæjarmarka og þar með  frítímahúsalíf  geta blandast bæjarlífinu ágætlega og auðgað það meira  þegar frá líður.  Maður þarf jú ekki að fara langt til að sækja sér menntun eða atvinnu.  Grundvallarþjónusta er hér til staðar og hún mjög góð. 

Á allra síðustu árum hefur verið snyrt verulega vel til hér í bænum þó að sum hús hafi þá sorgarsögu að geyma að eigendur hafa flutt héðan og ekki einu sinni borið við að auglýsa til sölu.  Þetta verða dapurlegir hjallar  sem bera síðustu eigendum ekki fagurt vitni.  

En bærinn hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og mér finnst hann bara flottur. 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæhæ'

Rosalega flott færsla:) þú kannt sko að blogga.

Það er bæði gott og slæmt að burtfluttir patreksfirðingar og aðrir séu að fjárfesta í húsum hérna á Patró en húsin standa þó ekki auð á meðan.

kv. Þórunn

Þórunn (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband