Bókaormur
8.8.2007 | 19:17
Já, ég telst líklega hreinræktaður ormur af þessari gerð. Ég ólst upp við það að bera virðingu fyrir skruddum af öllu tagi. Frændi minn Markús Ö. Thoroddsen safnaði bókum og batt inn í frístundum. Mér þótti sem krakka merkilegt að skoða í hillurnar hjá Bjössa og ekki síður að sjá þessi merkilegu tæki sem hann notaði við bókbandið. Hann vann líka í bókasafninu á staðnum og dubbaði að sjálfsögðu einhverjar laslegar bækur upp í betra band. Sömuleiðis hafa foreldrar mínir alltaf haft dálæti á bókum og hansahillurnar á bernskuheimilinu svignuðu undan bókum. Það má því segja að maður hafi alla tíð haft aðgang að ýmsum gullmolum í hillum fjölskyldunnar, sér til fróðleiks og ánægju. Ég fór sem stelpa í bókasafnið á fimmtudegi og var búin að afgreiða skammtinn á laugardegi. Í mörg ár eftir að börnin mín fæddust lá þessi lestraráhugi aðeins í dvala að mestu en tók sig upp aftur mér til mikillar ánægju og auðvitað las einhverjar barnabækur fyrir þau, man eftir að sú síðasta sem ég las upphátt var Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlings. Í mínum huga er lestur góðra bóka ein besta afþreying sem hægt er að hugsa sér. Einhversstaðar segir að "bókmenntir séu sálinni það sem hreyfing sé líkamanum" það er líklega margt til í því. Ég er hinsvegar misheilluð af efni bókanna og les alls ekki hvað sem er sem er auðvitað eðlilegasti hlutur í heimi að hafa skoðanir á hvaða andlega fóður maður velur sér. Mitt Idol í barnabókunum á sínum tíma var hún Nancy sem hafði svo frábæra leynilögguhæfileika og leysti hvert málið á fætur öðru, eins voru það Frank og Jói sem heilluðu líka talsvert. Það er því engin tilviljun að sakamálasögur eru þær bókmenntir sem hafa heillað mig mest og eins breskir sakamálaþættir, þeir klikka náttúrulega ekkert. Ég hef hins vegar lítið heillast af ástarsögum sem gera mest út á að koma hjúkkunni með kastaníubrúna hárið í fallega pilsinu og kasmírullarpeysunni í fangið á flotta nýráðna lækninum. Sá á oftast flottan bíl með leðursætum og loftkælingu. Ég fordæmi hins vegar ekki þá sem nenna að lesa þessar bækur, síður en svo. En annars les ég nú bara allt mögulegt það er ekki málið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.