Sumarfrí, sólardagar og fleira gott.
29.6.2007 | 18:33
Það er ótrúlega góð tilfinning að vera komin í sumarfrí en það er ég frá og með þessari stundu. Vona að veðrið í fríinu mínu verði eitthvað í líkingu við það sem búið er að vera undanfarna daga. Bara hreinasta sæla að fá svona bongó blíðu dag eftir dag. Nú eru Bíldudals grænar að byrja sem er hátíð þeirra Bílddælinga, þar er nú alltaf sól eins og við vitum Nei grínlaust þá nær innlögnin ekki inn að þorpinu þannig að þar er oft logn og ekkert nema gott um það að segja. (þýðir lítið að öfundast
)
Skemmtileg hátíð hjá þeim Bílddælingum þessar grænu baunir, enda skemmtilegt fólk upp til hópa og mikil leiklistarhefð þarna. Á síðustu "baunum" sá ég einleikin um Gísla Súrsson sem Elvar Logi Hannesson leikur á snilldarlegan hátt og útfærslan á verkinu finnst mér gerð á sérlega hugmyndaríkan hátt af honum og samstarfsfólki hans. Logi hefur farið víða með stykkið og hvarvetna er þetta lofað í hástert.
Ótrúlega mikið af ferðafólki hér á svæðinu, eflaust tengist það eitthvað hátíðinni á Bíldudal en mér finnst ég samt sjá meira en oft áður. Svo er frábæra sundlaugin okkar alveg hér við aðalgötuna þannig að maður sér mikið af aðkomufólki þar. Kraftakarlarnir úr Vestfjarðavíkingnum eru hér á svæðinu núna og þeir dreifa atriðunum um allt sem er bara sniðugt. Voru hér í gær , á Látrum í dag og verða að ég held á baununum á morgun. Það er sem sagt hellingur um að vera hér á svæðinu eins og svo oft. Það ætti engum að leiðast hér þessa fallegu sumardaga.
Ég hef verið frekar óvirk í blogginu sem helgast helst af tímaskorti - en það kemur dagur eftir þennan dag
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.