Gleðilega hátíð
17.6.2007 | 20:11
Já, gleðilega hátíð, - þessi dagur er bara gleðidagur fyrir margra hluta sakir. Veðrið í morgun lofaði góðu. Við skelltum okkur öll í sund, það er alltaf hressandi - sundlaugin ein af perlum bæjarins. Við dubbuðum okkur svo upp og fórum í kirkju þar sem yngsta barnið í familíunni var skírt og fékk nafnið Rakel Sara, falleg og góð nöfn. Sú stutta svaf bara vært og lét svona vatnsaustur og sálmasöng ekkert trufla sig á svona fínum degi, - sefur yfirleitt vært þessi litla kona. Eftir grand skírnarveislu héldu langt að komnir gestir til síns heima flestir hverjir.
Þegar fámennt var orðið hjá mér kíkti ég á mbl.is og las þar ræðu Sturlu Böðvarssonar sem hann flutti á Ísafirði í tilefni þjóðhátíðardagsins. Þar viðurkennir hann að kvótakerfið hafi verið mistök og að mikið sé framundan í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum - þ.m.t þurfi að tengja betur suður og norðursvæðið. Hafi stjórnmálamaður þá stjórnarliði viðurkennt þetta svona berum orðum áður varðandi kvótakerfið, hefur það farið fram hjá mér. KANNSKI eru í sjónmáli alvöru breytingar á byggðamálum í margvíslegu tilliti - reyndar hugsanlega heldur seint í rassinn gripið, þessu verður ekki breytt bara si svona úr því sem komið er - það vita allir. Hann fær samt hrós maðurinn fyrir að viðurkenna þetta svona afdráttarlaust. Og maður heldur auðvitað lengi í vonina um að úr rætist. Annað þýðir jú ekki.
Ég kíkti á póstinn minn og sá þessa líka flottu mynd sem mér var send frá viðburði í Lundúnum þar sem minn allra besti er staddur akkúrat núna - flott mynd og takk takk !!
Í dag var sterk innlögn hér í firðinum - en sól og nokkuð hlýtt. Núna þegar tekið er að kvölda er allt að detta í dúna logn og himnesk blíðan beinlínis kallar á mann út í góða veðrið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.