Sitt lítið af hvoru.
13.6.2007 | 21:27
Ég held að ég teljist þokkalega lánsöm manneskja. Er hraust og á góða fjölskyldu og vini. Krakkarnir mínir verulega góðar manneskjur. Maður hefur auðvitað komist að því eins og flestir sem nálgast miðjan aldur að lífið er ekki alltaf jafn notalegt en það telst nú líklega bara normalt.
Mig dauðlangar að segja frá nokkru sem ég er verulega ánægð með og það er grúbban sem samanstendur af gömlu bekkjarfélögunum úr barnaskólanum hér á Patró. Árgangurinn minn er nokkuð samheldinn hópur. Við höfum verið að hittast annað slagið á árunum síðan skólagöngu lauk. Höfum hist í Reykjavík, farið í óvissuferð á Suðurlandi, hist hér á Patró oftar en einu sinni og það gerðum við á sjómannadaginn í fyrra. Upp úr þeim hittingi var ákveðið að láta verða af Kaupmannahafnarferð á þessu ári. Ferðin varð að veruleika og þ. 17 maí s.l. fórum við rúmur helmingur bekkjarfélaganna ásamt mökum. Ferðin lukkaðist frábærlega vel, ég segi nú kannski ekki að Köben hafi verið rauðmáluð þegar við yfirgáfum borgina en rósrauður bjarmi sveif nú einhversstaðar þarna yfir samt. Gústi bekkjarbróðir var auðvitað mættur með kladdann og merkti við eins honum er einum lagið. Því miður komust ekki allir í þessa ferð eins og gengur en við stefnum að næsta bekkjarmóti eftir fjögur ár og vonandi komast sem flestir á það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.