Ágætis tilraun
13.6.2007 | 00:06
Þá fiktar maður sig í gegnum þetta bloggdæmi . Spurning hvort andríkið verði jafnmikið og maður lagði upp með - en það á þá bara eftir að koma í ljós.
Ég bý í litlum góðum bæ, Patreksfirði - sem einu sinni var reyndar mun stærri en það er nú önnur saga.
Hér er allt að taka á sig mynd sumarsins, gróður að verða með fallegasta móti, meira að segja fíflarnir sem æða um allt eru örugglega með þeim ræktarlegri á landinu svei mér þá.
Fólk farið að lagfæra húsin sín og kíkja á garðana, ilm af nýslegnu grasi og útsprungnum blómum ber fyrir vitin. Skokkarar og göngugarpar sjást á ferðinni, unglingar að prufa 50 cc hjólin, og hér er hoppað á trambólíni næstum í hverjum garði. Sannkölluð sumargleði.
Sjómannadagshelgin var mikil gleðihelgi hér og er aðalhátíð sumarsins í bænum. Veðrið var okkur hliðhollt og fjölmargir mættu á svæðið. Nokkur árgangsmót voru haldin og alltaf gaman að sjá brottflutta Patreksfirðinga heimsækja gamlar heimaslóðir. Sumir hafa ekki sést í fjölda ára - eru langt að komnir - þannig að þetta eru fagnaðarfundir.
Ég er Kvenfélagskona og í Kvenfélaginu Sif, mínu félagi, er sá siður að hafa kaffihlaðborð í félagsheimilinu á Sjómannadag og hefur svo verið í mörg ár. Kaffigestir skipta hundruðum og þar sem ég var að stússast í þessu núna get ég sagt að gestafjöldinn var á sjötta hundrað sem kom í þetta kaffi í ár. Allur ágóði þessa rennur síðan til góðgerðarmála sem við vinnum að félagskonur. Við erum hæstánægðar með hversu vel tekst til með þetta kaffi og gaman að sjá hversu ánægt fólk er að hittast og spjalla saman yfir veitingunum. Ég veit ekki annað en að almennt hafi allt farið vel fram í bænum á þessari helgi, eða amk stórslysalaust enda gæsla á svæðinu góð eins og þarf auðvitað að vera. Ef farið er út í dagskrá þessarar sjómannadagshelgar geta áhugasamir eflaust ennþá lesið hana á síðunni patreksfjordur.is en það er fjölmargt sem boðið var uppá. Við eigum marga listamenn sumir reyndar brottfluttir en í ár mættu strákar úr hljómsveit sem var hér starfandi á árum áður og héldu útgáfutónleika v/útkomu disks þar sem þeir flytja sína músík. Frábært framtak. Gæti talið upp fleiri listamenn hér en læt það bíða betri tíma.
Á Hvítasunnuhelginni var fermt hér í bæ.
Í Skjaldborgarbíói var sömu helgi heimildamyndahátíð sem lukkaðist ferlega vel. Vona að þetta sé eitthvað sem framhald verður á. Ég og Anna Jensd., báðar kvenfélagskonur, vorum í Félagsheimilinu megnið af laugardeginum. Elduðum plokkfisk fyrir kvikmyndahátíðargesti sem þeir síðan gæddu sér á um kvöldmatarleitið. Anna hafði bakað unaðslega góð rúgbrauð sem voru borin fram með fiskinum. Einfalt og þægilegt, - plokkfiskur, rúgbrauð og vatn með. Dásamlega gott þó ég segi sjálf frá
Það er oft mikið um að vera hér á Patró, synd að segja annað.
Úbbs !! Svo telur maður andríkið ekki vera nægjanlegt hér í bloggskrifum en nú er mál að linni.
Læt þetta duga í bili.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.