Gönguferðir í sumar

Þann 21. janúar s.l. fór ég á hádegisfund í "Sjóræningjahúsinu" hér í bæ.   Þetta var einn af svokölluðum súpufundum sem hafa verið einu sinni í mánuði í  vetur á veitingastöðum  hér á svæðinu þ.m í Tálknafirði og á Bíldudal.  Þetta eru sniðugir fundir sem ætlaðir eru til að kynna ýmis málefni sem eru í gangi,  bæði varðandi atvinnusköpun, já og bara  ýmsan fróðleik, t.d var Rauðakrossdeildin kynnt á einum og tilurð öskupoka á öðrum, Leikfélagið var kynnt og fyirtækið Tungusilungur í Tálknafirði svo fátt eitt sé talið.   Fundarefnið er nánast úr öllum áttum, yfirleitt mjög fróðlegir fundir og kynningarefni vel útfært.

En aftur að fundinum 21. janúar.  Þá kynnti Jóhann Svavarsson nýstofnað fyrirtæki Umfar sem hann stofnaði ásamt nokkrum öðrum.  Fyrirtækið sérhæfir sig í  leiðsögn og ferðaskipulagi um suðurhluta Vestfjarða.  Jóhann er öllum hnútum kunnugur hér á svæðinu, þrautreyndur leiðsögumaður í gönguferðum og fróður um hvern krók og kima landslags og sögu.  Hann hefur með sér vant fólk sem sömuleiðis þekkir hér vel til.

Fundurinn var góður, gaman að sjá vel gerða kynningu í máli og myndum um heimahagana.  Á vef Umfars  má sjá hinar ýmsu gönguleiðir sem eru hver annarri fallegri.  Spennandi valkostur fyrir þá sem hafa gaman af gönguferðum á fallegum slóðum.

Nokkur s.l ár hefur gönguhátíðin Svartfuglinn verið haldin hér og eftir því sem ég best veit verður hún áfram.   Einsaklingar hér á svæðinu hafa einnig verið með leiðsögn og nokkur ásókn er í þessar ferðir.

Margar þessara gönguleiða sem getið er um á vef Umfars langar mig að fara í  en þó hef ég ekki kjark til að ganga snarbrattar Skorarhlíðar. Hægt er að velja um erfiðar og auðveldari ferðir eins venja er þar sem boðið er upp á skipulagðar ferðir.  

Þess má svo geta svona rétt  í lokin að nafnið Umfar þýðir borðaröð í birðingi báts.


4. mars 2010

Ég hef svo sem ekkert sérstakt að segja um þessa frétt annað en að við gleðjumst nú flest við komu farfuglanna til landsins á hverju vori.

Bloggsíðan mín hefur verið í nærri hálfs árs  hvíld en hver veit nema að það fari að lifna eitthvað yfir henni á næstunni.  Mér fannst alveg tilvalið að hengja fréttina um komu farfuglanna hér við,  eftir þetta langa hlé Smile

 

4. mars 2010
 
Mynd tekin þ. 3.mars, bara fallegasta veður.

 


mbl.is Farfuglar að byrja að koma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú skal "skafið af beinunum".

Í aðdraganda  boðaðra  niðurskurðaráætlana ætla ég að leggja mitt af mörkum til að bera hönd fyrir höfuð minnar heimabyggðar og tala þá eðlilega út frá því sem mér stendur næst.  Ég fer vítt og breytt en ég vil taka  fram að það er langur vegur frá að hér sé mannlífið í einhverjum eymdargír.  Fólkið í samfélaginu unir nokkuð glatt við sitt og er vant því að þurfa að leggja sitt af mörkum til að gera gott betra hvort sem það er í gegnum öflug félög, atvinnustarfssemi eða sjálfstæð vinnuframlög. Íbúar víla  fátt fyrir sér að takast á við.  Hér eru ágætis skólar, íþróttamannvirki og yfirleitt fín grunnþjónusta sem hvert samfélag þarf á að halda.  Samfélagið hefur farið í gegnum, hagræðingarferli á ýmsum sviðum til sparnaðar sumt hefur gengið okkur nærri.  Um þessar mundir hangir  skuggi yfir.  Skuggi sem táknar breytingar, skuggi hárbeitts niðurskurðarhnífsins sem ég get ekki betur séð en að muni nánast skafa það litla sem eftir er af beinunum ef svo má að orði komast. 

Því er ekki hægt að taka með þegjandi þögninni.

Samtakamáttur íbúanna  er mikill og sér í lagi þegar á reynir en birtingarmynd þessa máttar er hins vegar ekki alveg augljós  mér  um þessar mundir og röddin er dauf.   Reyndar sá ég skrif atvinnumálanefndar sveitarfélagsins um samgöngumál og fleira í nýlegri fundargerð sem vitnað hefur verið í og það er auðvitað bara af hinu góða. Eins má nefna viðtöl við sveitarstjórann í Tálknafirði. Þetta er a.m.k það sem ég hef orðið vör við.  

Það sem yfir fámennar byggðir landsins og þá  um leið fólkið  í litlum sjávarplássum og sveitum suðursvæðis Vestjfarða  gengur og hefur gengið mjög mörg undanfarin ár er æði margt og misjafnt. Ástæður sömuleiðis ýmsar og margt sem tvinnast saman í orsökum þeirrar þróunar það nokkuð sem ég  er ég ekki svo grunnhyggin að gera mér ekki grein fyrir.

 Þegar horft er til baka og þá áratugi aftur í tímann þykist maður sjá  augljós merki um  hvert  stefnt hefur.  Byggðin  á svæðinu er mundi ég halda með viðkvæmasta móti eins og staðan er í dag.   Áhrif breytinga eru æði hröð.  Miðað við stöðuna eins og hún er í dag gæti maður haldið að byggðinni hafi verið ætlað á teikniborðinu að verða fámenn útkjálkabyggð, það hafi bara hreinlega verið stefnan.  Hvað hef ég fyrir mér í því ?  Jú sé horft til baka virðist sem þróunin hafi einfaldlega öll verið í þá áttina þ.m.t  afleiðingar ýmissa miður góðra ákvarðanna. Samfélagsgerðin og ásýnd er gjörbreytt.  Auðvitað má segja að þróun byggðar okkar svæðis hafi verið í takt við þróun svipaðra byggðarlaga annars staðar.  Atvinnu og þjónustuskerðing fólksflótti og aftur fólksflótti, þó hér hafi hún að  sumu leiti þróast á verri veg en almennt hefur gerst  á landvísu.

Þá sér í lagi  sé horft til vegamála. Vegamálin eru sér kapítuli út af fyrir sig, bara hneisa hreint út sagt.  Það er  ekki bara okkar hagur að vegasamband sé gott, það skiptir landsmenn alla máli og hvað öryggi varðar skiptir það heilmiklu máli.  Þetta veit hvert mannsbarn, svo mikið hefur verið rætt og ritað um vegina hér.  Við erum  afar illa sett í dag þegar niðurskurðarhníf Ríkisstjórnarinnar verður beitt af fullum krafti.  Við sem höfum lengi vonast eftir efndum loforða,  verðum nú  sökum seinkunnar  og  vanefnda   fyrir margfalt þyngri skelli ef fer sem horfir. 

Mér er skapi næst að spyrja:  Hvað höfum við til saka unnið ?

Þessi mál snúast jú um peninga, en ekki síður um VIÐHORF OG ÁHERSLUR.

En  svo ég snúi mér  að því sem varð  tilefni skrifa minna, viðkvæmu ástandi og horfum byggðar á suðursvæði Vestfjarða.  Það  má segja að í  dag séum  við íbúarnir örugglega   sammála  um að framtíðarhorfur séu í daprari  kantinum, það er fátt sem gefur tilefni til bjartsýni eftir niðurskurðarfréttir síðustu daga.

 Við sem byggjum samfélagið hér í Barðastrandarsýslum erum,  leyfi ég mér að segja nokkuð  sammála um að fyrir löngu sé komið nóg af sveltiviðhorfi og frestunum  hins opinbera.  Svelti og vanhugsuðum aðgerðum sem ég get ekki  látið hjá líða að álíta svona innra með mér að jaðri  við fyrirlitningu á okkur fólkinu sem hér býr. En ég vil þó seint gera ráðamönnum upp slíkar hugsanir.  

Í fámenninu verður eðlilega meira vart við niðurskurð en ella það gera sér allir grein fyrir því. Minnstu breytingar eru fljótar að hafa áhrif og það margfeldisáhrif sem segir sig sjálft að eru skamman tíma að telja. Fólk sér sig oft á tíðum knúið til að yfirgefa heimahagana.  Aldrei man ég eftir vangaveltum um sértækar aðgerðir til að aðstoða fólk sem yfirgefur heimkynni sem verða fyrir áföllum, svo sem stórfelldri atvinnuskerðingu eða öðrum breytingum af völdum ákvarðanatöku.  

Aldrei nokkurn tíma.

Fyrir nokkrum árum stefndi í að áætlun um mannsæmandi vegi yrði að veruleika, því fögnuðum við svo sannarlega en  eins og staðan er í dag stefnir ekki í að sú áætlun verði að veruleika í nánustu framtíð.   Fyrir skömmu þurfti að leysa Vestmannaeyjaferjuna Herjólf af og þá var Breiðafjarðarferjan Baldur fengin í það hlutverk eins og alþjóð veit sökum frétta af sífelldum vandræðum við  að koma Baldri á milli lands og Eyja. 

Skipið er jú ekki gert fyrir siglingar við þessar aðstæður, s.s. siglingu fyrir opnu hafi með einhverri ákveðinni   ölduhæð.  Á meðan Baldur var í afleysingunni þyngdist  umferð  landleiðina sem ráðamenn vita að er á köflum handónýtur vegur og nánast ein hola.  Myndir vegfarenda af holóttum vegunum fóru eins og rauður þráður um netið  og sömuleiðis greinar um málið bæði þar og að minnsta kosti í einu dagblaðanna.

Fisk og vöruflutningar eru oft í viku af  svæðinu og inná það og  umferð er töluverð  á meðan fært er, því fólk er mikið á ferðinni  Nú heyrast fréttir af því að ferðum ferjunnar Baldurs eigi að fækka og eins  að mokstursdögum  verði   fækkað á landleiðinni yfir vetrartímann.  Við þessar fréttir bregður okkur illilega, við erum algjörlega háð  traustum og góðum samgöngum.

Fyrir nokkrum  árum var lofað af hálfu hins opinbera að flytja störf með a.m.k fjórum stöðugildum  hingað Vestur.  Einhver undirbúningsvinna v/þessa varð sýnileg en síðan ekki söguna meir,  - það ferli virðist í dag týnt og tröllum gefið.  Hvað varð um þessi störf ?

Hér á svæðinu er ágæt Heilbrigðisstofnun, og undir hatti hennar er heilsugæsla og sjúkrahús, að því er ég best veit sæmilega útbúið með hæfu  starfsfólki  s.s hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum svo fátt eitt sé talið.  Staðan á Heilbrigðisstofnuninni  er fyrir löngu orðin sú að tveir læknar sem eru ekki búsettir hér, koma og eru viku  í senn.  Nú um hríð hefur annar komið að sunnan en hinn frá Ísafirði með tilheyrandi skrautlegheitum sem ferðamáti á milli Ísafjarðar og Barðastrandarsýslu  kallar á yfir veturinn.    Engin ljósmóðir er lengur starfandi á svæðinu  og því engar barnsfæðingar  á sjúkrahúsinu.

Yfirstjórn lögreglumála var færð til Ísafjarðar.  Um tíma vann hér yfirmaður frá Ísafirði og ók hér á milli til að sinna vöktum, það fyrirkomulag stóð stutt og  varð því úr að yfirmannsstöðunni var aftur komið til fyrra horfs þ.e.  til manns með búsetu á svæðinu. Yfirstjórn lögreglunnar er þó  áfram á Ísafirði eins og varð eftir fyrrnefnda tilfærslu.   Það sér það hver lifandi maður sem þekkir til á Vestfjörðum að svona samvinna stofnanna og embætta á Vestfjörðum er mjög erfið og eiginlega illframkvæmanleg miðað við núverandi stöðu samgöngumála.  Skipan mála við  starfsstöð lögreglunnar hér  hefur  breyst hratt á skömmum tíma.  Í dag gengur illa að manna stöður, sem er reyndar  vandi á landsvísu að mér skilst.  Í dag hafa  tveir vakthafandi lögreglumenn af fjórum  ekki fasta búsetu hér.

Staða sýslufulltrúa við Sýslumannsembættið á staðnum  er aflögð fyrir nokkrum árum.  Nú í erfiðleikunum sem að þjóðinni steðja er meðal niðurskurðartillagna að Sýslumannsembættum  landsins  verði fækkað svo um munar eða úr tuttugu og fjórum í sjö.  Það saxast þá á eina lykilþjónustuna á svæðinu.  Staða Sýslumanns sem verið hefur hér um áratuga skeið verður aflögð, það þykir okkur miður.

Mér þætti forvitnilegt að sjá sparnaðartölur.

Ég hlustaði á glefsur úr stefnuræðu forsætisráðherra en gluggaði svo betur í ræðuna  á netinu.  Það er öllum ljóst að verkefni ráðamanna er gríðarlegt og í sjálfu sér ekki öfundsvert en á málinu þarf engu að síður að taka.  Margt gott er í farvatninu  eins og endurskoðun vinnu og siðareglna ráðherra og embættismanna enda löngu tímabær aðgerð.  Öll þessi vinna við að komast að kjarna þess sem olli hruni fjármálakerfisins er af hinu góða. Rannsóknarvinnu vegna hugsanlegra  glæpsamlegra  þátta  einhverra  þeirra aðila  sem komust í lykilstöður fjármálageirans og viðskiptalífsins, ber  auðvitað að taka fagnandi.  

Forsætisráðherra talaði um mestu uppstokkun í stjórnkerfi og stjórnsýslu hins opinbera á lýðveldistímanum,  það er eðlilega lag um þessar mundir að gera breytingar, ef ekki við þessar aðstæður þá aldrei. Spurningar vakna hins vegar um áhrif þessara aðgerða  á mynstur byggðar í landinu sé litið til framtíðar. Breytingar eru nauðsynlegar það er öllum ljóst og vissulega þarf að skera niður og spara. Maður veltir því bara fyrir sér hvað ræður áherslunum og hvað ræður svæðaskiptingu við ákvarðanatöku.  

Þær breytingar sem snúa að pólitískum samskiptum við alþjóðasamfélagið eiga sömuleiðis að endurskoðast enda hlýtur alþjóðasamfélagið að hafa skilning á því að það þurfi að gera við þær aðstæður sem við glímum við í dag. Þá er ég t.d að tala um fjölda sendiráða og möguleika til hagræðingar á þeim vettvangi  með  öllum þeim ráðum  sem nútíma tækni býður uppá.

Þær niðurskurðarhugmyndir  sem snúa að okkur hér  í mínu litla samfélagi eru mjög neikvæðar og ýta undir svartsýni og vondeyfð íbúa, sem ég vona þó að láti aldrei bugast.  Hefði ekki verið hægt að hafa þetta með öðrum hætti ?  - ég trúi að svo sé.  Ég held að þarna hefði verið hægt að haga áherslum á annan hátt og mildari.  Svo ég tali út frá mínum bæjardyrum og mínu nærsamfélagi þá neita ég að trúa að það sé eðlilegt að loforðainnistæða okkar hjá Ríkinu sé færð algjörlega niður fyrir núllið og krefst þess að okkur verði sýnd virðing og sómi sem öðrum  skattgreiðendum þessa lands.

Þessi pistill er skrifaður eftir að hafa heyrt hljóðið í fólkinu í samfélaginu undanfarin ár en þó mest  undanfarna daga.  Þessi pistill birtir kannski ekki sérlega jákvæða mynd, enda er ég  að draga fram mynd viðkvæmrar  stöðu   okkar hér í ljósi þróunar undanfarinna ára.

Hér er  góður samfélagslegur grunnur frá gamalli tíð, góð  rótgróin fyrirtæki eru til staðar.  Sprotar nýrra tækifæra komnir upp úr moldinni, sprotar sem hafa alla burði til að vaxa og dafna.  Það sem við köllum á er að þeir sprotar og það rótfasta sem fyrir er  fái tilhlýðilega næringu til að vaxa áfram og dafna.  Það er þrátt fyrir allt hugur í fólki.

Eftir þetta hrun í fyrra haust var ekki laust við að manni finndist fólk sækja til landsbyggðarinnar, einhverjir brottfluttir komu aftur heim.  Þá sögu er hægt að segja af fleiri stöðum á landsbyggðinni.  

Í sumar var ferðamannastraumur hingað sem aldrei fyrr.  Það blés okkur vissulega von í brjóst, en við lifum ekki á sumarferðamennskunni einni saman þegar hriktir í grunnstoðum.  Við þolum enga frekari skerðingu þegar við höfum svo lengi verið í því  hlutverki að reyna  að halda sjó.  Bara alls ekki.

 Það skal tekið fram að við vanþökkum ekki það sem vel er gert en vanhugsaðri aðför að grunnþjónustu samfélags okkar  verður  að linna. Viðkvæmt samfélag má heldur ekki við ómarkvissum og kostnaðarsömum þreyfingum  sem engu skila öðru en að vera partur af loforðum stjórnmálamanna.

Í ofangreindum pistli tala ég um mína heimabyggð,  frá mínum bæjardyrum séð.    Ég geri mér þó grein fyrir að mín heimabyggð er ekki sú eina sem glímir við erfiðleika, síður en svo.

 Að lokum.

Það hlýtur að vera  lífinu í landinu til heilla, sama hvaðan horft er að í því sé lífvænleg byggð sem víðast  og þá að lífið  sé í sinni fjölbreyttustu mynd.  Það sýnir sig að nærsamfélag er okkur mikilvægt þegar harðnar á dalnum og við þurfum sem mest  að treysta á okkur sjálf t.d varðandi matvæli og grunnþjónustu. Við vitum líka að ræktun og búseta eru partur af landslagi hvers lands.

Ég á mér marga drauma.  Einn er sá að ég kýs að  sjá Ísland nýrra tíma endurreisnar í miklum  blóma, byggt ánægðum og nokkuð sáttum  íbúum. 

Íbúum sem ALLIR eru þáttakendur, óháð stétt, stöðu eða búsetuvali.

Það tel ég borga sig.


Golf á landsbyggðinni

Hér á Vestfjörðum eru golfvelllir, íþróttahús og sundlaugar eitt af því sem fámenn þorpin  geta státað af. hér á Patreksfirði er  t.d skemmtilegur völlur, sem komið var upp á fallegum stað í botni fjarðarins í stuttri akstursfjarlægð frá þorpinu.   Golfvellirnir hérna á Vestfjörðunum eru skemmtilegir, það er löngu vitað og í rauninni mikil verðmæti fólgin í slíkri aðstöðu. 
mbl.is Góðir golfvellir á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórða gönguhátíðin.

Skemmtilegt framtak og flottar ferðir í boði. 
mbl.is Svartfugl gönguhátíð hefst á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhugsunarvert

Ég hef verið hlynnt  endurskoðun umferðarlaga og þá þeim atriðum laganna  sem lúta að refsingu við umferðarlagabrotum,  eflingu ökunáms og finnst í góðu lagi að hækka bílprófsaldurinn.  

Að minnsta kosti tvær greinar í þessum  tillögum að  breytingu laganna  virka  hreinlega sérkennilegar á mig.  Sú fyrri sem ég birti hér leggur til áfangahækkun á bílprófsaldrinum. Af hverju ekki að hækka aldurinn og búið mál ? 

Sú seinni  kallar á  að eftirleiðis þurfi  að fylgjast með hvað margir séu í bílnum hjá ökumönnum á tilteknum tíma sólahringsins !!  Hvernig skildi útfærslan á eftirliti með þessu atriði  verða ?  Væntanlega verður þetta hlutverk lögrelgunnar og hrein viðbót við þeirra störf að fylgjast með hversu margir séu á rúntinum með ungu fólki um helgar.   Nema að foreldrum sé ætlað að hafa eftirlit með þessu ?

Þarna finnst mér bara verið að flækja málin óþarflega.

 

 ·  Lagt er til að gerð verði sú breyting frá gildandi ákvæðum umferðarlaga að einstaklingur þurfi að vera fullra 18 ára til að heimilt sé að veita honum ökuskírteini, en samkvæmt gildandi lögum er lágmarksaldurinn 17 ár. Aldurstakmörk verði hækkuð í áföngum til ársins 2014 þannig að veita megi þeim ökuréttindi í fyrsta sinn sem verða 17 ára á árinu 2011,17 ára og þriggja mánaða á árinu 2012, 17 ára og sex mánaða á árinu 2013 og 17 ára og níu mánaða á árinu 2014. Á árinu 2015 verði síðan 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda.

 

·  Áður en ökumaður er orðinn fullra 20 ára er honum óheimilt að aka með fleiri en einn farþega frá klukkan 23 á föstudegi til klukkan 9 að morgni laugardags og frá klukkan 23 á laugardegi til klukkan 9 að morgni sunnudags. Þetta gildir þó ekki ef farþegi er barn ökumanns eða foreldri, eða ef um er að ræða akstur í neyð. Áður en ökumaður er fullra 20 ára er honum óheimilt að aka breyttri bifreið.


mbl.is Bílprófsaldur hækkaður í 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Roðafífill

Fyrir nokkru tók ég eftir nýjum lit í jurtaflóru hálfgerðs óræktarsvæðis hér í bæ, sem hingað til hefur að helst skartað grænum og gulum lit yfir sumartímann.  Þetta vakti forvitni mína og ég ákvað að sækja  sýnishorn. Við nánari athugun kom í ljós að þetta er Roðafífill.

Þetta er hið fallegasta blóm og kærkomin tilbreyting frá Túnfíflinum sem veður hér um allt og er mörgum til ama þó að fallegur sé. 

 

Á vefnum www.floraislands.is segir um jurtina Roðafífil.:

Roðafífill (Pilosella aurantiaca) er slæðingur hér á Íslandi, náskyldur íslandsfífli sem vex villtur um allt land. Roðafífillinn er í útliti mjög líkur íslandsfífli, hefur löng hár á stönglinum eins og hann. Eini áberandi munurinn er litur blómanna, en þau eru skærrauð en ekki gul. Roðafífillinn er sums staðar ræktaður lítið eitt í görðum, og sáir sér eflaust auðveldlega þaðan. Hann spjarar sig auðveldlega úti á víðavangi á sama hátt og Íslandsfífillinn. Hann vekur hvarvetna athygli vegna litar síns, og væri gott að fá upplýsingar um hann þar sem menn sjá hann vaxa villtan.

Tilvitnun lýkur.

 

Jakobsfífillinn er þekktur hér, eins Íslandsfífillinn en ég man  alls ekki eftir að hafa nokkurn tíma séð Roðafífil fyrr en nú í sumar.  Það má þó vel vera að hann hafi sést áður á á sunnanverðum Vestfjörðum án þess að ég hafi mikið tekið eftir honum og væri þá gaman að vita ef fleiri kannast við hann af svæðinu.

Roðafífill

 


Afmæli olnbogabarns.

Í dag fékk  ég boðskort í afmæli.  Afmæli dálítið sérstaks afmælisbarns sem varð til  en  það svo að mestu látið óáreitt utan vítamínskota svona af og til , bara svona  rétt til að halda í því lífinu.

Í dag er það vannært, beinabert, grátt og guggið þrátt fyrir að hafa  lengst af búið við alsnægtir.  Því miður hefur því ekki verið sinnt nægjanlega vel  af þeim sem helst hafa getað hlúð að því.    Nú er afmælisbarnið að verða fimmtugt, vannært sem fyrr og í stagbættum fötum.   Það er verulega verr  útlítandi en  jafnaldrar þess víða um land sem sumir hverjir hafa  meira að segja fengið extreme makeover.

 

Ég ætla að sýna þessu afmælisbarni virðingu, mér er hlýtt til þess, hef margoft á ári átt samskipti við það síðan ég var fyrst kynnt  fyrir því sem hvítvoðungur.  Mig langar að heiðra það á afmælinu og  mæti því  ef ég mögulega get.  Ég vona svo sannarlega að sem flestir geri slíkt hið sama  og að við sýnum líka forráðamönnum þess við þetta tækifæri  hve heitt við óskum þess öll  að það komist framar í forgangsröðína. Að áformin um aukna sinningu rati  ekki í hólf merkt „GLEYMIST“ 

Rætist ósk okkar fá sem  flestir enn frekar  notið þeirra ánægjulegu kynna sem afmælisbarnið getur boðið okkur uppá  með tilveru sinni.

Því miður hefur harðnað illilega á dalnum hjá forráðamönnum, enn sem fyrr í mörg horn að líta  og óvíst með alsherjar breytingar.  En að gefast upp og missa vonina er ekki til í okkar orðabók.  Gerum við það er eins gott að setja upp tærnar eins og kerlingin sagðiSmile

 

 

Hér er brot úr boðskortinu:

 

Áhugahópur manna og kvenna á Vestfjörðum hefur ákveðið að efna til hátíðahalda vegna þeirra tímamóta að 50 ár verða í haust síðan vegur var lagður um Dynjandisheiði og akvegasamband komst á milli byggðarlaga á Vestfjörðum og milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.
Jafnframt er vakin athygli á því að þörf er á áframhaldandi framförum í vegagerð til þess að tengja saman byggðirnar með fullnægjandi hætti miðað við kröfur nútímans.

Ætlunin er að koma saman á Dynjandisheiði af þessu tilefni fimmtudagskvöldið 16. júlí frá kl. 19.00 til 21.00.

Dagskrá verður send út síðar í vikunni svo og frekari tilkynningar.

 

 


Sól, sjór og sandur

Eftir lestur frétta og bloggs í morgun m.a um Icesave og fleiri hörmunga sem á okkur dynja var kærkomið að bregða sér út í sólskinið og sumarloftið.  Ég skrapp á sannkallaða sólarströnd sem við erum svo heppin að hafa rétt við bæjardyrnar.Smile   

Á Sandoddanum

Horft út Patreksfjörðinn

 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

 

 

 


Matar og menningarhátíð helgina 10.- 12. júlí.

Það er nóg um að velja í bæjarhátíðum og allskonar uppákomum um allt land, flestar helgar í sumar.  Gífurlega fjölbreytt og spennandi  dagskrá.  Á næstu helgi verður hátíðin Matur og menning haldin hér á Patreksfirði.  Á dagskránni eru m.a mörg spennandi tónlistaratriði, en hér má sjá niðurröðun atriða í heild sinni.   


Matur og menning í Vesturbyggð 2009, hátíð helgina 10.-12.júlí.

 

Föstudagur 10. júlí

Kl. 20.00 - 21.00
Tónleikar í Patreksfjarðarkirkju
Flutt verða veraldleg og trúarleg sönglög jafnt erlend sem íslensk. Flytjendur eru: Gísli Magnason, Anna Sigríður Helgadóttir, Kristín Erna Blöndal, Will Kwiatkowski, Örn Arnarson og Aðalheiður Þorsteinsdóttir.

Kl. 22.00
Tónleikar á Kaffi Sæla á Tálknafirði.
Tónlistarmaðurinn Toggi spilar og syngur ma. Lagið vinsæla ,,Þú komst við hjartað í mér". Ókeypis.

 

Laugardagur 11. júlí

Kl. 11.00 - 12.30.
Sjóstangveiði og sigling frá Patreksfirði.
Iceland Sailing.
Siglt um Patreksfjörðinn með Sæljóma BA-59.
Verð. 2500 per mann og 1250 13-16 ára og frítt yngri en 12 ára.

Kl. 13.00 -16.00
Sumarmarkaður Vestfjarða í Pakkhúsið Patreksfirði.
Dagskrá fyrir yngstu kynslóðina og markaðstemmning.

Kl. 16.00-17.00.
Tónleikar í Skjalborgarbíó á Patreksfirði.
Minningarstund í tali og tónum til heiðurs Steingrími Sigfússyni tónskáld og rithöfundi frá Patreksfirði. Steingrímur (f. 1919 - d. 1976). var organisti í Patreksfjarðprestakalli í 25 ár. Aðgangseyrir: 1.000,-

Kl. 18.00

Sjávarfangs- sælkeraveisla í Smiðjunni í
Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði.
Sætapantanir í síma 845-1224 ( María).

kl. 20.00
Tónleikar í Sjóræningjahúsinu.
Bjargræðiskvartettinn skemmtir sér og öðrum með glensi og grini. Miðaverð 1.000 kr.

 

Sunnudagur 12. júlí

Kl. 14.00
Messað í Patreksfjarðarkirkju.
Tónlistarveisla í kirkjunni.
Prestur: Séra Leifur Ragnar Jónsson.
Flytjendur tónlistar eru: Gísli Magnason, Will Kwiatkowski, Anna Sigríður Helgadóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband